GUNSHIP gefa út nýtt lag

Synth popp hljómsveitin GUNSHIP frá Bretlandi var einungis stofnuð fyrir nokkrum árum en hefur nú þegar gert stóra hluti í samfélaginu. Hljómsveitin fær innblástur frá tónlist og kvikmyndum áttunda áratugarins. Mörg af lögum þeirra eru tileinkuð nokkrum af vinsælustu kvikmyndum áttunda áratugarins.

Í byrjun þessa árs bað GUNSHIP aðdáendur sína á félagsmiðlum að senda inn upptökur af sínum eigin hvatningarræðum. Það voru miklar vangaveltur á þeim tíma hvort þessi bón væri til þess að búa til nýtt lag. Nú hefur vinna aðdáenda skilað sér og verið kynnt. Í þessari viku gaf GUNSHIP út nýjasta lag sitt, “When You Grow Up Your Heart Dies”. Það er nú hægt að nálgast um allan heim.

Titillinn er í tilvísun til unglingamyndarinnar The Breakfast Club eftir John Hughes en sú klassík kom út árið 1985 og naut mikilla vinsælda. Línuna segir feimin og uppreisnargjörn “goth” stúlka, leikin af “Brat Pack” stjörnunni Ally Sheedy. Í opinberu myndbandi hljómsveitarinnar sjáum við stílíseraða mynd af Sheedy í akkúrat þessari senu.

Lagið hefur nú þegar hlotið jákvæð viðbrögð frá aðdáendum bæði hljómsveitarinnar og gömlu, sígildu kvikmyndarinnar. Lagið er óvenju langt fyrir GUNSHIP, en það er nánast 6 mínútur í heild. Ástæðan fyrir þessu eru hinar umfangsmiklu upptökur sem sendar voru frá tryggum hlustendum og fylgjendum hljómsveitarinnar. Því ber að veita athygli að hljómsveitin hefur greinilega verið að leggja áherslu á jákvæðan tón í laginu og uppörvandi skilaboð á bak við textann.

Þetta nýjasta lag hljómsveitarinnar kemur fljótlega eftir að bandið birti lag sitt “Dark All Day”. Eins og “When You Grow Up Your Heart Dies” þá er það lag einnig undir áhrifum af klassískum vinsælum kvikmyndum frá áttunda áratugnum. Í þessu tilfelli var það vampírumyndin The Lost Boys. Hljómsveitin fór jafnvel það langt með hugmyndina að þeir fengu saxófónleikarann Tim Cappello til að endurleika hlutverk sitt í nostalgísku tónlistarmyndbandi lagsins.